Ungmennaráð Laugardals og Kringluhverfis

Ungmennaráð hafa starfað í öllum hverfum Reykjavíkur síðan haustið 2001 af frumkvæði Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Í dag starfa 8 ungmennaráð í jafnmörgum hverfum borgarinnar. Starfstími hvers ráðs er eitt ár í senn.

Fulltrúar í Ungmennaráðum koma úr hópi 13-18 ára nemenda í grunn- og framhaldsskólum. Nemendaráð hvers skóla tilnefnir tvo fulltrúa en Ungmennaráðin geta óskað eftir fleiri fulltrúum til starfa.

Markmið
Markmiðið með stofnun Ungmennaráða er meðal annars að skapa vettvang og leiðir til þess að gera ungu fólki yngra en 18 ára, kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við viðeigandi aðila. Einnig að veita þátttakendum í ráðunum, fræðslu og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og vettvang til að þjálfa sig í slíkum vinnubrögðum.

Kringluráð og Laugardalsráð
Í Laugardals- og Háaleitishverfi eru starfandi tvö ungmennaráð, annars vegar Laugardalsráð og hinsvegar Kringluráð. Í Kringluráði sitja fulltrúar úr Álftamýrarskóla, Fjölbrautaskólanum við Ármúla, Hvassaleitisskóla, Réttarholtsskóla og Verslunarskóla Íslands. Í Laugardalsráði sitja fulltrúar úr Langholtsskóla, Laugalækjarskóla, Menntaskólanum Hraðbraut, Menntaskólanum við Sund og Vogaskóla.

Kringluráð og Laugardalsráð funda saman einu sinni á tveggja vikna fresti. Viðfangsefni þessara funda hafa meðal annars verið samgöngur í hverfinu, skólinn, félagslíf, lög og reglur varðandi þennan aldurshóp í samfélaginu og alþjóðleg samskipti.

Reykjavíkurráð ungmenna
Ungmennaráðin tilnefna hvort fyrir sig tvo fulltrúa til setu í Reykjavíkurráði ungmenna.
Fastur liður hjá Reykjavíkurráði er árlegur fundur með Borgarstjórn en á þeim fundi koma fulltrúar með ýmsar tillögur að úrbótum í þeirra hverfi og borginni allri.

Starfsmenn ráðanna
Tveir starfsmenn frá frístundamiðstöðinni Kringlumýri og Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis eru fulltrúum í ungmennaráðunum til halds og trausts.Flýtileiðir


Breyta um leturstærð/Mínar stillingar


Leit