Flakkarar Kringlumýrar

Frístundamiðstöðin Kringlumýri sér um 8 frístundaheimili í Laugardal, Háaleiti og Bústaðahverfi. Hjá Kringlumýri starfa fjórir sérhæfðir starfsmenn sem flakka á milli frístundaheimila og leggja fyrir krakkana ýmis fjölbreytt verkefni, en þeir eru í viku í senn á hverjum stað. Flakkararnir okkar eru Markús (tónlist), Brynjar (kvikmyndagerð), Jónsi (leikir) og Samúel (útivera).

Markús

Markús Bjarnason er frístundaleiðbeinandi hjá Kringlumýri sem hefur starfað í frístundastarfi til fjölda ára víðsvegar um borgina. Markús er tónlistarmaður og hefur gefið út lög með hljómsveitum eins og Markús and the diversion sessions og fleiri.

Hann hefur í vetur byggt upp mjög fallegt og skemmtilegt tónlistarverkefni þar sem hann flakkar á milli frístundaheimila og kynnir krökkunum fyrir möguleikum tónlistar í víðu samhengi. Hann hefur búið til trommuhringi þar sem börnin fá bæði að fá frjálsar hendur og líka æfa sig í að finna sameiginlegan takt og halda í við hann. Hann hefur líka verið að gefa krökkunum tækifæri til þess að búa til tónlist með trommuheilum og míkrafón.  Tónlistarspil, gítar, hristur og alskonar verkfæri hafa gefið honum skemmtilega sérstöðu sem mörg börnin eru strax farin að læra að elska.

Jónsi

Jónsi(Jón Steinar Ágústson) er frístundaleiðbeinandi sem hefur við mjög góðan orðstír unnið í frístundaheimilinu Sólbúum og félagsmiðstöðvum borgarinnar. Hann er leikjasérfræðingurinn okkar og kemur með skemmtilega og nýja leiki í hvert skipti sem hann mætir. Hann kemur með mikla orku og gleði með sér og útnefnir svo alltaf “snilla” hvers leiks sem fær sérstakt pláss á veggjum Glaðheima. Hérna að ofan má sjá hann í sprengjuleiknum með krökkunum í Glaðheimum.

Samuel

Samuel Levesque kemur frá bandaríkjunum og hefur búið á íslandi í rúmlega áratug. Hann hefur nánast allan þann tíma unnið með börnum í laugardalnum og þar í kring með sína einstöku áherslu á útileiki og alla þá möguleika sem felast í því að vera úti. Hann var upphafið og krafturinn í “skylmó” væðingu frístundaheimilanna en hvert frístundaheimili í hverfinu býr yfir vopnabúri af frauð sverðum sem börnin berjast reglulega með. Hvert sumar er svo risa skylmó í laugardalnum þar sem nokkur hundruð börn koma saman í alskonar skylmingarleikjum.

Samuel hefur einnig verið duglegur að kynna börnunum fyrir möguleikum útieldunar og býður þeim reglulega uppá heitt kakó yfir varðeldi. Hann hefur einnig kennt okkur nokkrar skemmtilegar leiðir til þess að byggja snjóhús og má til dæmis sjá eitt slíkt hérna fyrir neðan sem Glaðheimar byggðu í janúar 2019.

Brynjar

Brynjar Kristmundsson er kvikmyndagerðamaður sem hefur starfað í Kringlumýri í mörg ár á frístundaheimilinu Álftabæ og hefur á þeim tíma gert ótalmargar stuttumyndir með krökkunum þar. Núna er hann flakkari og er því farinn að gera stuttmyndir með öllum krökkunum á frístundaheimilum hverfisins.

Fyrsta heimsókn hans í Glaðheima var rétt fyrir jól 2018 og gerðu krakkarnir þá myndina “Raggi litli og Jólalandið” Hana má sjá með því að ýta á hlekkinn hérna fyrir neðan.

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt