Við í Guluhlíð höfum unnið hörðum höndum að því að efla tómstundastarf okkar frá degi til dags og sníða þær að þörfum barna okkar. Tómstundastarfið hefur reynst vel fyrir starf okkar og hefur vakið mikla lukku fyrir bæði börn og starfsfólk.

Gönguferðir

Í Guluhlíð hvetjum við eindregið til þess að fólk skelli sér út í göngutúr ef veður er við hæfi. Með göngum er markmiðið að stuðla að aukinni útiveru barna og starfsmanna. Alla jafna eru í boði skipulagðar gönguferðir eða frjálsar ferðir. Börnunum er þá raðað saman í hópa og fara með starfsmönnum í gönguferðir þar sem alls kyns ævintýri eiga sér stað. Náttúruperlurnar Nauthólsvík og Öskjuhlíð eru nálægt og því stutt að fara í vettvangsferðir sem bjóða upp á skemmtilegt umhverfi og upplifun. Í lok gönguferða er gjarnan farið inn í hlýjuna og hellt upp á kakó fyrir bæði börn og starfsmenn sem er mjög vinsælt.

Íþróttir:

Íþróttir eru alla mánudaga í Guluhlíð þar sem börnin rölta saman yfir í íþróttasal Klettaskóla og skemmta sér saman. Þar er farið í margs konar íþróttir á borð við þrautabrautir, boltaleiki og fleiri skemmtilega leiki. Börnin hafa verið afar ánægð með þessa tíma og þykja þrautabrautirnar einna skemmtilegastar þar sem eitthvað er að finna fyrir alla.

Dans

Dans er alla þriðjudaga í Guluhlíð. Danstímarnir fara fram í íþróttasal Klettaskóla frá 14:15-15:00. Þar tökum við saman sporið og dönsum við skemmtileg lög eins 0g fugladansinn, súperman lagið, babyshark, hókí pókí o.fl.

Listasmiðja

Í öllum þremur húsum Guluhlíðar eru starfræktar listasmiðjur þar sem börnin fá tækifæri til að sýna sköpunargleði sína og listræna hæfileika. Í listasmiðjunum er hægt að gera alls kyns hluti t.d. búa til slím, mála myndir, teikna, leira og margt fleira. Starfsfólk Guluhlíðar er margt með listabakgrunn og hefur staðið sig vel í að skipuleggja ýmis konar skemmtilegt inni í listakrók, koma með hugmyndir og hvetja börnin áfram.

Bakstur

Á föstudögum bökum við ávallt eitthvað saman og eru þá vöfflur eða pizzasnúðar vinsæll valkostur hjá börnunum. Við hvetjum þau börn sem vilja að taka þátt í bakstrinum hvort sem það er að koma með hugmyndir, setja saman hráefni, hnoða deigið eða leggja á borð. Börnunum þykir þessi hefð mjög skemmtileg og fara því glöð inn í helgarfríið.

Popp og bíómynd

Eftir viðburðaríkan skóladag er stundum líka gott að mæta í Guluhlíð og slaka á yfir bíómynd. Gulahlíð vinnur eftir því gildi að vera mestmegnis skjálaust frístundaheimili en á fimmtudögum gerum við alltaf undantekningu. Þá poppum við popp fyrir börn og starfsmenn, drögum fyrir gardínurnar og höfum það kósý yfir sjónvarpinu. Peppa pig, Pokemon og Dýrin í Hálsaskógi eru vinsælastar í myndavali og leiðist krökkunum það ekki.

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt