Ungmenni funda með borgarstjórn

 In Askja, Buskinn, Bústaðir, Félagsmiðstöðvar (10-16 ára), Forsíðu frétt, Laugó, Tónabær, Þróttheimar

Þriðjudaginn 12. maí funda fulltrúar úr Reykjavíkurráði ungmenna með borgarstjórn á fundi í borgarstjórnarsal Ráðhússins. Til umfjöllunar eru tillögur frá ungmennum í Reykjavík um málefni sem á þeim brenna og þeim finnst að betur megi fara í borginni. Fundurinn hefst kl. 16.15 og vegna gildandi takmarkana á samkomum vegna farsóttar verður einungis hægt að fylgjast með fundinum í gegnum streymi að þessu sinni. Streymt verður frá fundinum á vefslóðinni http://reykjavik.is/fundirborgarstjornar/borgarstjorn-i-beinni.

Fundur Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarstjórnar er orðinn að árvissum viðburði og er þessi fundur sá nítjándi í röðinni. Að þessu sinni liggja átta tillögur fyrir fundinum og snúa þær m.a. að því að kennsla í fjármálalæsi verði skylda í grunnskólum, aðgengi verði að ókeypis tíðarvörum í öllum grunnskólum og félagsmiðstöðvum, að ungmennahúsum í borginni verði fjölgað og að grunnskólakennarar fái aukna fræðslu um loftslagsmál.

Fulltrúar í Reykjavíkurráði ungmenna hafa haft í nógu að snúast í vetur. Ráðið hittist vikulega og skipulagði að auki starfsdag fyrir unglinga í öllum ungmennaráðum Reykjavíkur. Ráðið var í góðu og miklu samstarfi við ungmennaráð skátanna en ráðin undirbjuggu í sameiningu og héldu fjölmennt málþing um málefni ungmennaráða, Ráðabrugg, þar sem ungmenni gátu sótt innblástur fyrir störf sín á komandi starfsári og kynnst starfi annarra ráða. Áhersla var lögð á verkefni sem hafa verið rekin af og fyrir ungmenni og gagnlegar reynslusögur frá hinum ýmsu ungmennaráðum. Reykjavíkurráð ungmenna á einnig fulltrúa í skóla- og frístundaráði og í stjórn Barnamenningarhátíðar.

Reykjavíkurráð ungmenna er samráðsvettvangur allra ungmennaráðanna sex í Reykjavík en hvert ungmennaráð tilnefnir sína fulltrúa í Reykjavíkurráðið.

Markmið með starfsemi Reykjavíkurráðs ungmenna og ungmennaráðanna í Reykjavík er m.a. að skapa vettvang og leiðir til þess að gera þeim sem eru yngri en 18 ára kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri og þjálfast í lýðræðislegum vinnubrögðum. Í starfi sínu í vetur og síðastliðin ár hafa Reykjavíkurráðið og ungmennaráðin í borginni fjallað um málefni ungs fólks og tekið þátt í ýmsum verkefnum sem fulltrúar ungs fólks í Reykjavík.

Meðfylgjandi er yfirlit yfir tillögurnar sem lagðar verða fyrir borgarstjórn.

Allar nánari upplýsingar veitir Hulda Valdís Valdimarsdóttir verkefnastjóri á fagskrifstofu frístundamála og starfsmaður Reykjavíkurráðs ungmenna, í síma 695-5021. 

Tillögur og greinargerðir vegna fundar ungmenna með borgarstjórn Reykjavíkur maí 2020:
1) Embla María Möller Atladóttir, fulltrúi ungmennaráðs Grafarvogs
Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Grafarvogs um kennslu í fjármálalæsi í grunnskólum  Reykjavíkur:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að hefja vinnu við innleiðingu skyldunáms í fjármálalæsi í samstarfi við grunnskóla Reykjavíkurborgar.  Miða skal við að kennsla hefjist í öllum grunnskólum eigi síðar en á haustmisseri 2021.
Greinargerð:
Vegna aukinnar vitundar um mikilvægi þess að ungmenni læri um fjármál, atvinnumarkaðinn og réttindi á vinnumarkaði telur ungmennaráð Grafarvogs að tryggja þurfi kennslu um þessi viðfangsefni. Innleiðing á kennslu í fjármálalæsi myndi styðja við þessa áhersluþætti sem finna má í nýrri menntastefnu Reykjavíkurborgar. Útfærsla af þessari tillögu gæti til dæmis verið í formi skylduáfanga fyrir ákveðna árganga en gætu einnig fallið undir kennslu í öðrum námsgreinum, s.s. samfélagsfræði.
2) Saga María Sæþórsdóttir, fulltrúi ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða
Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða um fríar tíðarvörur í alla grunnskóla og félagsmiðstöðvar:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að veita auknu fjármagni til grunnskóla og félagsmiðstöðva til þess að hægt sé að auðvelda aðgengi barna og ungmenna að fríum tíðarvörum frá og með hausti 2020.
Greinargerð:
Kynþroskaskeiðið er viðkvæmt tímabil í lífi einstaklings og því er gott að vita að tíðarvörur verði aðgengilegri en þær eru í dag. Það minnkar stress og hefur í för með sér mun meiri þægindi. Þessi kaup ættu að vera í líkingu við kaup á klósettpappír. Samkvæmt grófum útreikningum eru tíðarvörur ekki kostnaðarsamar vörur og þá sérstaklega ekki eftir að bleiki skatturinn var afnuminn.
3) Nadía Lóa Atladóttir, fulltrúi ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða
Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða um aukna fræðslu um fólk á flótta:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að bjóða nemendum í grunnskólum Reykjavíkur aukna fræðslu um fólk á flótta og stöðu þeirra í íslensku samfélagi, eigi síðar en haustið 2020.
Greinargerð:
Eins og staðan er í dag er lítil sem engin þekking á málefnum og aðstæðum fólks á flótta hjá ungmennum og samfélaginu í heild. Það er mikilvægt að vita hvernig er tekið á móti fólki á flótta og hvernig það ferli gengur fyrir sig. Það er gagnlegt fyrir ungmenni að þekkja mismunandi menningarheima. Ungmennaráð Laugardals, Háaleitis og Bústaða leggur til að aukin fræðsla um fólk á flótta verði sett í námskrá grunnskóla sem mun þá sporna gegn fordómum og óréttlæti ásamt því að leyfa nemendum að heyra reynslusögur frá fólki á flótta.
4) Aldís Lóa Benediktsdóttir, fulltrúi ungmennaráðs Breiðholts
Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Breiðholts um að ungmennahús verði starfrækt í öllum hverfum Reykjavíkur fyrir ungmenni á aldrinum 16-20 ára:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að tryggja fjármagn til skóla- og frístundasviðs til að allar frístundamiðstöðvar í Reykjavík geti haft að lágmarki eitt ungmennahús í hverju hverfi fyrir ungmenni á aldrinum 16-20 ára eigi síðar en á fjárhagsárinu 2021.
Greinargerð:
Í nágrannasveitarfélögum okkar eru ungmennahús starfrækt við góðan orðstír. Mörg þessara sveitarfélaga eru svipuð að stærð eða jafnvel minni þegar kemur að íbúafjölda en eitt meðalstórt hverfi í Reykjavík. Af hverju er þjónusta við þennan hóp minni í Reykjavík en í nágrannasveitarfélögum okkar? Í stefnu Reykjavíkurborgar um frístundaþjónustu til 2025 kemur fram að koma þurfi til móts við þarfir 16+ hópsins um frístundaþjónustu í hverfum borgarinnar. Ungmennaráð Breiðholts leggur því til að fjármagn verði tryggt til þess að frístundamiðstöðvar geti veitt þessa þjónustu.
5) Karin Guttesen, fulltrúi ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða
Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða um að tryggja aðgengi félagsmiðstöðva að íþróttahúsi í öllum hverfum Reykjavíkurborgar:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að beina því til skóla- og frístundaráðs að tryggja aðgengi félagsmiðstöðva Reykjavíkurborgar að íþróttahúsi í hverfi þeirrar félagsmiðstöðvar sem um ræðir. Lagt er til að breytingin taki gildi í byrjun skólaárs 2020-2021.
Greinargerð:
Margar félagsmiðstöðvar í Reykjavík hafa ekki aðgengi að íþróttahúsi með viðeigandi íþróttasal. Við teljum það mikilvægt að Reykjavíkurborg tryggi að allar félagsmiðstöðvar Reykjavíkurborgar hafi aðgengi að íþróttahúsi í sínu hverfi í að minnsta kosti tvær og hálfa klukkustund á viku sem miðast við að jafnaði eina kvöldopnun í viku. Með því getur hver og ein félagsmiðstöð haft kost á því að auka til muna heilsueflingu í starfi sínu fyrir ungmenni síns hverfis. Ekki æfa öll ungmenni íþróttir en með því að bjóða upp á heilsueflandi dagskrá að minnsta kosti einu sinni í viku í hverri félagsmiðstöð er hægt að virkja mun fleiri ungmenni til hreyfingar.
6) Brynjar Bragi Einarsson, fulltrúi ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða

Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða um fræðslu um loftlagsmál fyrir kennara í Reykjavík til að nýta í kennslu:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að stofna starfshóp sem samanstendur af fagmönnum og ungmennum sem vinnur að því að fræða kennara í grunnskólum Reykjavíkur um loftlagsmál með það markmið að þeir muni nýta þá vitneskju í eigin kennslu. Í hópnum skulu m.a. eiga sæti fulltrúar skóla- og frístundasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar en lagt er til að fræðsla verði hafin á skólaárinu 2020-2021.
Greinargerð:
Það hefur orðið mikil vitundarvakning í samfélaginu varðandi loftlagsbreytingar og þau áhrif sem þær hafa í för með sér. Við teljum það mikilvægt að börn og ungmenni fái fræðslu um málaflokkinn og að hann sé innleiddur inn í námsefni á öllum grunnskólastigum. Þá þykir okkur einnig mjög mikilvægt að kennarar séu fræddir um loftlagsbreytingar og geti þar af leiðandi nýtt vitneskju sína innan kennslustofunnar á fjölbreyttan máta. Þannig teljum við að hægt sé að tryggja frekari áhuga barna og ungmenna á sjálfbærari og umhverfisvænni framtíð.
7) Bára Katrín Jóhannsdóttir, fulltrúi ungmennaráðs Árbæjar og Holta
Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um aukna jafnréttisfræðslu fyrir börn og ungmenni:
Lagt er til að borgarstjórn feli skóla- og frístundaráði að sjá til þess að börn og ungmenni fái jafnréttisfræðslu við hæfi og að slík fræðsla fari fram í öllum skólum frá og með hausti 2020
Greinargerð:
Ísland er fjölmenningarsamfélag. Í slíku samfélagi er ekki rými fyrir mismunun, hvort sem er vegna trúar, menningar, þjóðernis, kyns, kynþáttar, kynhneigðar eða annarra þátta.
Ungmennaráð Árbæjar og Holta fer fram á að Reykjavíkurborg sjái öllum ungmennum á aldrinum 12-16 ára fyrir viðeigandi jafnréttisfræðslu til að koma í veg fyrir það misrétti sem margir verða fyrir. Ýmis konar fræðsla er nú þegar til staðar en það þarf að sjá til þess að hún sé nýtt til að spyrna gegn þeim fordómum sem lifa í samfélagi okkar.
8) Regína Bergmann Guðmundsdóttir, fulltrúi ungmennaráðs Kjalarness
Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Kjalarness um sjálfsvarnarkennslu í grunnskólum fyrir nemendur á unglingastigi:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að innleiða sjálfsvarnarkennslu í alla grunnskóla Reykjavíkur, annað hvort sem sér kennslugrein eða sem hluta af íþróttakennslu, eigi síðar en á haustönn 2021.
Greinargerð:
Undanfarin misseri hefur borið á aukinni ofbeldishegðun meðal ungmenna á Íslandi.  Birtingarmynd þess er frábrugðin því sem áður var en í dag er algengt að slagsmál séu tekin upp og síðan deilt í gegnum samfélagsmiðla. Við, unga fólkið í landinu, verðum að öllum líkindum meira vör við ofbeldið heldur en eldra fólk sem notar samfélagsmiðla ekki eins mikið. Okkur stendur uggur af tíðni ofbeldis og teljum okkur oft ekki örugg og þá sérstaklega ekki þegar við erum ein á ferð. Af þessum sökum leggur ungmennaráð Kjalarness til að Reykjavíkurborg bregðist við með því að sjá nemendum á unglingastigi í grunnskólum Reykjavíkur fyrir kennslu í grunnþáttum sjálfsvarnar.
Recent Posts
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt