Þróttheimar fá styrk frá Þórunarsjóði skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur

 In Forsíðu frétt, Þróttheimar

Miðvikudaginn 25. janúar fékk félagsmiðstöðin Þróttheimar styrk frá Þórunarsjóði skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Verkefnið stefnir að því að vekja ungmenni til umhugsunar um margþætt mikilvægi þess að huga að eigin geðheilsu ásamt því að vera meðvituð um geðheilbrigði í þeirra nærumhverfi og samfélaginu í heild. Lykilþema verkefnisins mun vera geðheilbrigði ungmenna í Laugardalnum enda ber okkur að huga að velferð þeirra ungmenna sem sækja til okkar þjónustu. Við teljum að verkefni sem þetta gæti stuðlað að víðsýnna viðhorfi til jaðarsettra hópa og búið til öruggara umhverfi fyrir ungmenni hverfisins.

Verkefnið er sprottið upp úr tillögu ungmennaráðs Laugardals og Háaleitis að efla geðheilsu ungmenna í skólum borgarinnar. Þróttheimar vilja vinna markvisst að þessu með því að halda úti mánaðarlegum fræðslukvöldum þar sem gestir eru fengnir til að koma og tala við ungmenni um hina fjölmörgu snertipunkta geðheilbrigðis við líf ungmenna. Við teljum einnig að verkefnið gæti stutt við ungmenni út í lífið og sú þekking sem öðlast gæti ferðast með þeim frá félagsmiðstöðinni inn í skólann, heimilið, félagslíf, íþróttir ofl. Starfsfólk Þróttheima ætlar að vinna verkefnið í samstarfi við Langholtsskóla og vonumst til þess að þetta gæti orðið kveikja að áframhaldandi umræðum í lífsleiknitíma. Verkefnið á einnig að vera opið öðrum félagsmiðstöðum innan Kringlumýrar. Ungmennum og starfsfólki þeirra er velkomið að taka beinan þátt í skipulaginu eða/og koma á fræðslukvöld. Ungmennin munu sjálf halda utan um fræðslukvöldin, vinna kynningarmyndband fyrir hvert kvöld sem tengist umræðuefni fundarins.

Langtímamarkmið verkefnisins er að ungmennin læri að halda utan um slíka viðburði og kynna þá af fagmennsku. Einnig vonumst við til þess að þau sem sækja fyrirlestrana og taka þátt í umræðum eftir fundina taki með sér þekkingu og aukan víðsýni út í lífið. Ekki er síður mikilvægt að efla samkennd og virðingu meðal ungmenna og við teljum að þetta sé kjörin leið til þess.

Recent Posts
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt