Ungmennaráð Laugardals, Háaleitis og Bústaða á ráðstefnu UMFÍ

 í flokknum: Askja, Buskinn, Bústaðir, Félagsmiðstöðvar (10-16 ára), Forsíðu frétt, Laugó, Tónabær, Þróttheimar

Í gær, fimmtudaginn 17.september fór Ungmennaráð Laugardals, Háaleitis og Bústaða á ráðstefnu á vegum Ungmennaráðs Íslands sem haldin var í Silfurbergi í Hörpunni. Ráðstefnan bar heitið Ungt fólk og lýðræði og var dagskráin ekki af verri endanum. Guðni Th. Jóhannesson og Dagur B. Eggertsson settu ráðstefnuna og hófst svo dagskráin. Beggi Ólafs steig fyrstur á svið með fyrirlestur sem bar heitið „Betri í dag en í gær.“ Fyrirlesturinn var mikil hvatning til ungmennanna. Þar næst kom Jón Halldórsson frá KVAN með fyrirlestur um jákvæða og neikvæða leiðtoga. Á milli fyrirlestra var farið í hópeflisleiki og blandað geði. Að fyrirlestrum loknum var ráðstefnugestum skipt upp í umræðuhópa sem dreift var á þrjár stöðvar þar sem var samtal um hvar, hvenær og hvernig ungt fólk hefur áhrif. Á hverri stöð voru þingmenn sem tóku þátt í umræðunum og hlustuðu á unga fólkið.
Þingmenn sem sátu í umræðuhópunum voru eftirfarandi:

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata
Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta og menningarmálaráðherra
Logi Már Einarsson, formaður og þingmaður Samfylkingarinnar
Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar og þingmaður
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Að umræðuhópum loknum fengu ráðstefnugestir ljúffenga máltíð frá Kolabrautinni. Eftir hádegismat héldu umræðuhópar áfram en þá hjálpuðust hóparnir að við að semja spurningar til þingmanna sem voru væntanlegir í pallborðsumræður. Við pallborðið voru Andrés Ingi Jónsson – þingmaður, Bryndís Haraldsdóttir – þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Sanna Magdalena – borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Reykjavíkur, Sigurður Ingi Jóhannsson – samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Steinunn Þóra Árnadóttir – þingmaður Vinstri grænna og Willum Þór Þórsson – þingmaður Framsóknarflokksins.

Þetta var viðburðarríkur og skemmtilegur dagur sem ungmennaráðið okkar hafði gagn og gaman af. Þetta höfðu nokkrir úr ungmennaráðinu að segja um ráðstefnuna:

„Mér fannst hún mjög skemmtileg, mér fannst pallborðsumræðan standa uppúr og ég lærði fullt um hvernig þingið virkar og hvernig þingmenn leysa úr vandamálum“

„Þetta var geggjað og er svo glöð að hafa farið. Lærði helling og hefði samt viljað hafa meiri tima í pallborðsræðunar“

„Mér fannst þetta mjög skemmtilegt og fræðandi“

„Ég lærði fullt um pólitík sem ég vissi ekki fyrir. Það var gott að geta talað beint við þingmennina og þau hlustuðu á það sem við höfðum að segja“

Ungmennaráð Laugardals, Háaleitis og Bústaða er opið ráð sem starfar undir handleiðslu frístundaráðgjafa í frístundamiðstöðinni Kringlumýri. Starfsmenn ráðsins starfa fyrst og fremst sem ráðgjafar ráðsins en taka ekki frumkvæði í störfum þess.

Ungmennaráð hafa starfað í öllum hverfum borgarinnar frá því haustið 2001. Markmiðið með starfsemi ungmennaráða er að skapa vettvang og leiðir til þess að gera þeim sem eru yngri en 18 ára kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við viðeigandi aðila. Í starfi sínu síðastliðin ár hafa ungmennaráð fjallað um málefni ungs fólks og tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum, auk árlegs fundar með borgarstjórn. Á þeim fundi var öllum tillögum ungmennanna vísað til umræðu í fagnefndum borgarinnar.

Þeir sem hafa áhuga á að vera með í Ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða geta haft samband við starfsfólk í þeirra félagsmiðstöð og einnig fylgst með samfélagsmiðlum félagsmiðstöðvarinnar þeirra þar sem næstu fundir eru auglýstir.

Nýlegar færslur
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Ólæsilegt? Breyttu textanum. captcha txt